Jón Karl Ólafsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri innanlandsflugvallasviðs hjá Isavia. Starfið felst í því að hafa yfirumsjón með rekstri og þróun innanlandsflugvalla á Íslandi, en þar af eru tólf áætlunarflugvellir og á fjórða tug annarra flugvalla og lendingarstaða.

Jón Karl hefur reynslu af sviði viðskipta, sölu- og markaðsmála auk þess sem hann hefur gegnt starfi forstjóra bæði hjá Icelandair og Primera Air. Hann var einnig ráðinn framkvæmdastjóri hjá CP Reykjavík í febrúar síðastliðinn.

„Innanlandsflugvellir eru gríðarlega mikilvægir innviðir fyrir ferðaþjónustuna og nauðsynlegt almannasamgöngukerfi sem tengir landið saman," segir Jón Karl. „Ég þekki það af mínum fyrri störfum bæði í flugi og ferðaþjónustu að í innanlandsflugvallakerfinu liggja mikil tækifæri sem við getum nýtt enn betur. Það er því sannarlega spennandi og ögrandi starf framundan," bætir hann við.

Hann tekur við starfinu 1. október næstkomandi.