Jón S. von Tetzchner, frumkvöðull og fjárfestir, hefur keypt 10% hlut í íslensku flugleitarvélinni Dohop. Jón kaupir hlutinn af núverandi hluthöfum Dohop ehf. og því ekki um að ræða útgáfu nýs hlutafjár að sinni, að því er fram kemur í tilkynningu. Hann verður þriðji stærsti hluthafi fyrirtækisins í kjölfarið. Á meðal stærri hluthafa eru Nýsköpunarsjóður með 10,8% hlut og Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Frosti stofnaði Dohop árið 2004 og á 19,4% hlut í fyrirtækinu. Ekki kemur fram hvað hann greiðir fyrir hlutinn í Dohop.

Fram kemur í tilkynningu að nýverið var opnuð skrifstofa Dohop í Osló í Noregi og mun þar verða einn starfsmaðurfyrst um sinn. Skrifstofan í Osló mun fyrst og fremst sinna markaðsmálum og almannatengslum á Norðurlöndum en Dohop hyggur á frekari landvinninga þar.

„Dohop býr yfir flugleitartækni sem á fáa sína líka í heiminum og hægt er að nýta hana til að stuðla að auknum vexti og viðgangi félagins,“ segir Jón í tilkynningunni og bætir hann við að fyrirtækið sé vel staðsett til vaxtar erlendis. Hann sjái tækifæri m.a. í Skandinavíu, í Austur-Evrópu og Asíu.

Hefur fjárfest talsvert hér

Jón stofnaði norska hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software árið 1995 við annan mann en fyrirtækið, sem nú er skráð í norsku kauphöllina, rekur samnefndan netvafra, Opera. Jón var lengi vel framkvæmdastjóri fyrirtækisins en hætti í byrjun árs 2010. Hann á enn 3,5% hlut í Opera Software sem metinn er á tæpa 2 milljarða króna. Hann hefur fjárfest talsvert hér á landi eftir að hann hætti hjá Opera Software, s.s. í félögunum Oz, Spyr, SmartMedia og fjarskiptafyrirtækinu Hringdu auk kaupa á fasteignum. Þá rekur hann jafnframt frumkvöðlasetur á Seltjarnarnesi, í Bandaríkjunum og í Noregi.