„Við rannsókn á málefnum Exeter Holdings hef ég, sem stjórnarmaður í Byr gefið skýrslu hjá Sérstökum saksóknara.  Þrátt fyrir að ég telji mig hafa hreinan skjöld í þessu máli, hef ég, eins og aðrir sem tóku þátt í afgreiðslu málsins, fengið réttarstöðu grunaðs. Af þeim sökum hef ég óskað eftir að láta af stjórnarstörfum á meðan á rannsókn málsins stendur og kalla inn varamann í minn stað,“ segir Jón Kr. Sólnes í yfirlýsingu sem send var fjölmiðlum.

„Tildrög þeirrar stöðu sem nú er komin upp eru þau að þann 19. desember 2008 var ég kallaður inn á stjórnarfund í Byr sparisjóði sem varamaður.  Á fundinum voru meðal annars til umfjöllunar málefni Exeter Holdings (Tæknisetur Arkea) þar sem samþykkt var að framlengja yfirdráttarláni félagsins, sem sagt var í eigu MP fjárfestingarbanka og lánamörk hækkuð til þess að mæta vaxtagreiðslum. Í umræðum kom skýrt fram að ekki væri ætlunin að nýta þennan reikning í bráð en atburðarás næstu vikna leiddi í ljós að við það var ekki staðið.

Að mínu áliti er algjörlega nauðsynlegt að fullkomið traust ríki í garð allra þeirra sem koma að endurreisn Byrs sparisjóðs. Þess vegna vil ég víkja til hliðar á meðan ég hef umrædda réttarstöðu.  Ég vil nota tækifærið og þakka samstarfsfólki fyrir þann áfanga sem náðst hefur í endurreisn sparisjóðsins. Sjálfur mun ég, hér eftir sem hingað til, leggja mitt af mörkum til þess að ljúka megi þeirri vinnu,“ segir Jón í yfirlýsingu.