Jón Björnsson, fyrrverandi forstjóri stórverslunarinnar Magasin du Nord í Danmörku, og Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs og forstjóri Veritas Capital, eru á meðal þeirra fjárfesta sem hyggjast kaupa eignir Kaupás af Norvik. Inni í Kaupási eru verslanir Norvikur á borð við Krónuna, Nóatún og Elko. Kaupin eru langt komin, að sögn Morgunblaðsins.

Viðskiptablaðið sagði frá því í júlí að Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri og eigandi Norvikur, hafi ákveðið að selja stóra hluta Norvikur nema Byko og væru viðræður hafnar við sjóðinn SÍA II, sem rekinn er af Stefni, dótturfyrirtæki Arion banka.