Heimaleiga hefur ráðið tvo nýja starfsmenn, þau Jón Rúnar Jónsson og Sigurbjörgu Mettu Sigurjónsdóttur, sem hófu bæði störf hjá fyrirtækinu í byrjun árs.

Sigurbjörg Metta Sigurjónsdóttir tekur stöðu sem sölu- og markaðsstjóri Heimaleigu. Hún hefur bakgrunn í ferðaþjónustu þar sem hún hefur starfað í hátt í 8 ár, síðast hjá skrifstofunni Nordic Visitor, en þar áður hjá Arctic Adventures, Jamies Italian og Bláa lóninu.

Einnig hefur hún fengið reynslu í markaðsstarfi undanfarin ár en hún er með BSc gráðu í ferðamennsku með markaðssetningu sem aukagrein og svo stundar nú meistaranám í markaðsfræði við Háskólann á Bifröst.

Sigurbjörg Metta er fædd og uppalin í Ólafsvík á Snæfellsnesi og býr í Kópavogi. Utan vinnu sinnir hún fjölbreyttum störfum og verkefnum fyrir Hjálparsveit skáta í Kópavogi og unir sér best á flakki um hálendi Íslands.

Jón Rúnar Jónsson tekur stöðu viðskiptastjóra hjá Heimaleigu. Jón, sem er eigandi Mogi Marketing Agency, kemur til Heimaleigu frá Green Energy Travel, en einnig hefur hann starfað hjá GreenKey ehf., auk þess sem hann gengdi stöðu framkvæmdarstjóra hjá Bæklingadreifingu ehf. á árunum 2017 til 2019.

Jón er með þekkingu á sviði viðskiptastjórnar, greiningu viðskiptatækifæra ásamt því að viðhalda viðskiptum. Jón Rúnar er í meistaranámi í viðskiptaþróun í Háskóla Íslands hann er með BSc gráðu í markaðssetningu frá sama skóla.

Hann ólst upp í Breiðholti en kom sér síðar fyrir í Kópavogi þar sem hann býr með eiginkonu sinni. Í frítíma sínum eflir hann ræðumennsku sína með alþjóðahreyfingunni JCI ásamt því að þjálfa lið fyrir keppni í Morfís.

Heimaleiga sinnir alhliða þjónustu fyrir eigendur íbúða og gististaða með snertilausa innritun í skammtímaleigu. Meðal þess sem Heimaleiga annast er markaðssetning, verðstýring, samskipti við gesti og þrif ásamt því að leysa öll þau vandamál sem koma upp. Helstu verkefni Heimaleigu eru Sif Apartments, Blue Mountain Apartments og Iceland Comfort Apartments.