„Við keyptum vörumerkið og hugsum okkur að nota það í framleiðslu á ísmolum,“ segir athafnamaðurinn Jón Ólafsson, forstjóri og stjórnarformaður vatnsfyrirtækisins Icelandic Water Holdings. Fyrirtækið greindi frá því í dag að það hafi keypt vörumerkið Iceland Glacier úr þrotabúi fyrirtækisins Iceland Glacier Products ehf. Fyrirtæki Jóns framleiðir og selur vatn á flöskum víða um heim undir vörumerkinu Icelandic Glacial.

Jón segir í samtali við vb.is það hafa verið skoðað að fara í mál við Iceland Glacier Products vegna þess hve keimlík vörumerkin voru. Á hinn bóginn hafi þótt hagkvæmara að kaupa vörumerkið en fara með málið fyrir dómstóla.

Það var athafnamaðurinn Otto Spork sem stofnaði fyrirtækið Iceland Glacier Products og hafði hann árið 2007 áform um að flytja út vatn í flöskum og belgjum undir merkjum fyrirtækisins frá Rifi á Snæfellsnesi. Fyrirtækið reisti m.a. 7.000 fermetra verksmiðju á Rifi þar sem vatninu átti að tappa vatni á flöskur og gáma til útflutnings. Fjármálayfirvöld í Kanada höfðu Spork hins vegar grunaðan lengi um misferli með fé úr þremur vogunarsjóðum félags sem hann stýrði í Kanada og frysti þá um langt skeið. Í desember árið 2011 var svo fyrirtæki Spork hér á landi úrskurðað gjaldþrota og fóru áform hans út um þúfur. Spork, dóttir hans og mágur voru svo um mitt síðasta ár dæmdi fyrir verðbréfasvik og gert að greiða jafnvirði 170 milljóna króna í sekt. Auk þessa var þeim þremur meinað að eiga eiga viðskipti með verðbréf.

Fyrirhugað er að ísmolarnir verði framleiddir í átöppunarverksmiðiju Icelandic Water Holdings við Hlíðarenda við Þorlákshöfn í Ölfusi.