Þótt bankarnir séu stútfullir af peningum þá er erfitt að fá lánað hér til að reka fyrirtæki, að sögn vatnsbóndans Jóns Ólafssonar. Hann sagði í viðtali við Adam Johnsson, þáttastjórnanda Street Smart á Bloomberg-sjónvarpsstöðinni í gær græðgi hafa ráðið för fyrir hrun, lærdómurinn sé nægjusemi og eigi þjóðir ekki að flytja inn meira en þær þurfi á að halda.

Í þættinum var skautað yfir feril Jóns, rætt um Skífuna sem hann stofnaði snemma á áttunda áratug síðustu aldar og sölu hans á eignum sínum hér skömmu eftir síðustu aldamót. Þá var ítarlega rætt við Jón um tilurð vatnsfyrirtækisins sem hann stofnaði með syni sínum fyrir nokkrum árum og útflutning á vatni undir merkjum Icelandic Glacial. Myndir voru jafnframt sýndar frá Hlíðarenda við Þorlákshöfn þar sem verksmiðjan er ásamt átöppun á vatninu í verksmiðjunni.

Jón lagði í spjallinu áherslu á hreinleika íslenska vatnsins og sagði það hafa skipt máli þegar snyrtivörufyrirtækið Dior ákvað að nota það í snyrtivörulínunni Dior Snow.

Þáttastjórnandi spurði Jón jafnframt að því hvernig honum líkaði samlíkingin við breska orkuboltann Richard Branson, sem eins og Jón hóf feril sinn í viðskiptalífinu með plötusölu.

„Hann er fínn náungi,“ svaraði Jón.

Viðtalið við Jón Ólafsson á Bloomberg