„Þetta hefur engin áhrif á mína starfsemi eða fyrirtækja í minni eigu. Að öðru leyti vil ég ekkert tjá mig um þessi mál,“ sagði Jón Ólafsson athafnamaður í samtali við Viðskiptablaðið í gær. Hann stendur nú í ströngu þar sem Landsbankinn hefur stefnt honum og krafist þess að fá greiddar rúmlega 2,2 miljónir punda, eða um 420 milljónir króna, ásamt dráttarvöxtum.

Skuldina má rekja til yfirdráttarláns sem félag Jóns á Bresku jómfrúareyjunum, Jervistone Limited, fékk hjá Sparisjóðnum í Keflavík (SpKef) en Landsbankinn hefur nú yfirtekið skuldbindingar sjóðsins. DV sagði frá málatilbúnaðinum í gær en stefnan á hendur Jóni var birt í Lögbirtingablaðinu 19. apríl sl.

Jón Ólafsson er einn eigenda vatnsútflutningsfyrirtækisins Icelandic Glacial, sem er með starfsemi í Ölfusi. Það var stofnað í apríl 2004 en hefur frá því árið 2005 selt vatn á alþjóðamörkuðum, meðal annars í Bandaríkjunum. Fyrirtækið sem framleiðir Icelandic Glacial, Icelandic Water Holdings, er með starfsemi á Íslandi, í Bandaríkjunum og Bretlandi, að því er segir á vefsíðu fyrirtækisins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.