Félagið Jervistone ltd., sem skráð er á Bresku jómfrúaeyjum, var í dag dæmt til að greiða Landsbankanum 2,26 milljónir punda, andvirði um 445 milljóna króna, vegna skuldar sem félagið stofnaði til á árunum 2006 til 2008. Athafnamaðurinn Jón Ólafsson er eigandi Jervistone og er hann í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldinni. Sé Jervistone ekki greiðslufært verður því hægt að ganga að Jóni sjálfum til greiðslu skuldarinnar.

Í upphafi árs 2006 gerði Jón samning við Sparisjóðinn í Keflavík um að Jervistone fengi lánalínu frá bankanum í breskum pundum sem nota átti til viðskipta með hlutabréf og var sjóðurinn með handveð í bréfunum. Meðal þess sem Jervistone bar við fyrir dómi var að Landsbankinn væri ekki aðili málsins, því hann hefði ekki sýnt fram á að krafan á Jervistone hafi verið ein þeirra sem fluttar voru yfir þegar Landsbankinn tók SpKef yfir. Þessu hafnaði Héraðsdómur.