Jón Ólafsson, stjórnarformaður og stofnandi Icelandic Glacial, segir nýja verksmiðju vera í burðarliðnum hjá fyrirtækinu. Jón greindi frá þessu í þættinum í Bítinu á Bylgjunni í morgun og sagði að nýja verksmiðjan myndi rísa í Ölfusi innan tveggja til þriggja ára. Fyrirtækið er nú með sjö þúsund fermetra verksmiðju í Ölfusi og selur vatn í 28 löndum.

„Við vorum að tilkynna 66 milljón dollara fjárfestingu í fyrirtækinu. Af því eru 35 milljónir í reiðufé og 31 milljón, var verið að skuldbreyta hluthafalánum í hlutafé. Nú erum við komin á þann stað að geta gert það sem við ætlum að gera. Að gefa í,“ sagði Jón í spjalli við Gulla og Heimi.

Jón ræddi einnig um mikið kynningastarfs sem unnið hefur verið til koma Iceland Glacial á framfæri erlendis.  „Við erum nú að gera samning um að vera aðalvatnið fyrir rauða dregilinn á Golden Globes. Þegar við erum komin á þennan stað, þá erum við orðin „alvöru“. Menn eru að koma til okkar og segja „Við viljum vera með ykkur. Þið eru betri og hreinni en aðrir.“ Þeir voru með Fiji en hentu Fiji út. Af hverju? Við erum með gler, ekki þeir,“ segir Jón.