Jón Ólafsson fjárfestir segist sá talsverð tækifæri í því að koma inn á íslenskan afþreyðingarmarkað á þessari stundu en hann er einn þeirra sem hafa lagt inn tilboð í Senu. Hann segist sjá tækifæri til að stækka fyrirtækið.

"Það eru ýmisleg tækifæri á íslenskum markaði í dag. Það sem er skemmtilegast við það sem ég er að gera er að ég er að gera tilboð í fyrirtækið með William Morris Agency sem er stærsta umboðsskrifstofa í heiminum. Með því að vinna með þeim verður svo auðvelt að stækka fyrirtækið og efla starfsemi þess á fleiri sviðum en það er á í dag. Jafnframt er þetta opnun fyrir íslenska listamenn til að koma sér á framfæri erlendis í gegnum þessa umboðsskrifstofu og við munum njóta þess með þeim.

Ég ætla að vona að Ísland verði ekki þar sem það er statt núna um ókomna tíð. Ég vona að það sé búið að ná botninum," sagði Jón.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru aðrir tilboðsgjafarnir bíókóngurinn Árni Samúelsson, stofnandi SAM-bíóanna, Jón Diðrik Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Glitnis og fyrrverandi stjórnarmaður í REI. Er nefnt að þar sé hugsanlega með Bjarni Ármannssoni, fjárfesti og fyrrverandi forstjóra bankans. Heimildir Viðskiptablaðsins herma hins vegar að Bjarni sé ekki með í tilboðshópnum. Aðrir sem Fréttablaðið nefnir eru Þóroddur Stefánsson, kenndur við Vídeóhöllina og Bónusvídeó, auk Jóns og William Morris Agency.

Sena keypti Skífuna af Árdegi í lok október á síðasta ári er Árdegi fór í greiðslustöðvun. Jón Ólafsson átti sem kunnugt er Skífuna um árabil.