Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari sendi efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra bréf í mars á þessu ári þar sem hann meinaði efnahagsbrotadeildinni að ákæra Jón Ólafsson, oft kenndan við Skífuna, á ný.

Ekki verður því hægt að gefa út aðra ákæru eins og efnahagsbrotadeild hafði áætlað. Bréfið barst fimm dögum áður en frestur til að gefa út aðra ákæru rann út. Málinu er nú lokið.

Forsaga málsins er sú að í byrjun árs 2004 tók efnahagsbrotadeild til rannsóknar ábendingar frá ríkisskattstjóra þess efnis að Jón hefði brotið skattalög. Snemma árs 2008 gaf efnahagsbrotadeildin út ákæru á hendur Jóni, Hreggviði Jónssyni, Símoni Ásgeiri Gunnarssyni og Ragnari Birgissyni fyrir stórfelld skattasvik.

Jóni og viðskiptafélögum hans var gefið að sök að hafa svikið um 360 milljónir króna undan skatti, en málið varðaði rekstur Norðurljósa og tengdra félaga í eigu Jóns.

Hins vegar er annað mál af svipuðum toga sem nú bíður afgreiðslu í dómskerfinu. Þann 23. september sl. felldi Hæstiréttur úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hafði vísað frá dómi stórum hluta ákæra á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Kristínu systur hans og Tryggva Jónssyni endurskoðanda, og fjárfestingarfélaginu Gaumi. Héraðsdómur hafði byggt frávísun sína á því að þar sem skattayfirvöld hefðu reiknað hinum ákærðu álag, vegna rangra skattskila, mætti ekki ákæra þau aftur – eins og í máli Jóns Ólafssonar.

Þessu hafnaði Hæstiréttur með fimm atkvæðum gegn engu og skipaði héraðsdómi að taka málið fyrir aftur og dæma í málinu. Héraðsdómur á eftir að taka málið fyrir á ný.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .