Á miðvikudagskvöldið síðastliðið hélt Jón Ólafsson tónleika fyrir um 100 manns á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. Jón þótti sýna afar skemmtilega sviðsframkomu og hélt tónleikagestum skellihlæjandi allt kvöldið á milli þess sem þeir hlýddu á fagra tóna. Jón spilaði hvort tveggja lög eftir sjálfan sig sem og eftir aðra í eigin útsetningu.

Icelandair stóð fyrir tónleikunum og voru þeir sérstaklega ætlaðir Íslendingum búsettum í Danmörku, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Icelandair hefur á sínum snærum sérstakan vildarklúbb fyrir Íslendinga búsetta á Norðurlöndunum, og býður klúbbfélögum reglulega til ýmissa veislna.

Guðmundur Óskarsson er markaðsstjóri Icelandair fyrir Skandinavíu og segir hann vildarklúbbinn hafa gefið góða raun: „Fólk af öllum Norðurlöndunum sækir þá viðburði sem við stöndum fyrir, en þeir eru jafnan haldnir hér í Kaupmannahöfn.”

Norðurbryggja er jafnan athvarf íslenskra listamanna í Kaupmannahöfn, en fyrir stuttu var Ragnar Bragason viðstaddur frumsýningu myndar sinnar Foreldra á téðri Norðurbryggju.

Þann 1. mars næstkomandi mun hin geysivinsæla popphljómsveit Sprengjuhöllin, ásamt Hjaltalín, trylla lýðinn á Norðurbryggju, en gert er ráð fyrir að Íslendingar á danskri grundu muni flykkjast að þegar þeir piltar stíga á stokk.