Jón Ólafur Halldórsson, formaður Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), tók til máls á aðalfundi SVÞ í dag og gerði eftirlitstofnunum að umræðuefni sínu.

„Eftirlit með því að lögum og reglum sé fylgt í atvinnulífinu er nauðsynlegt," segir Jón. Hann bætir við að ríkisstjórnin og flestir atvinnurekendur séu sammála um að hægt sé að gera skýrari reglugerðir en eru í dag og auk þess að einfalda eftirlit með því að þeim sé framfylgt á samræmdan hátt. Eftirlitsiðnaður sé þannig eins og „illviðráðanlegur frumskógur þar sem erfitt er að rata og gengur lítið að komast út úr þótt vilji sé fyrir hendi."

Hann segir að vel hefði gengið hjá einkaaðilum að sjá um hin ýmsu eftirlitstörf. „Ríki og sveitarfélög ættu að líta til góðrar reynslu af því að fela einkaaðilum bifreiða- og skipaskoðanir, rafskoðanir og löggildingu mælitækja."

Jón veltir því fyrir sér af hverju ríkið þurfi að halda úti eftirliti á ýmsum eftirlitstofnunum. „Afhverju þarf ríkið að halda úti eftirliti á vegum til dæmis MAST, Fiskistofu, Vinnueftirlits og Neytendastofu? Öllu þessu má sinna af einkaaðilum á grundvelli alþjóðlegra staðla um hlutleysi, verkferla og samræmi sem eru strangari en hjá hinu opinbera? Af hverju spyr ég?"