Jón Þórisson, forstjóri VBS Fjárfestingabanka, segir í samtali við Viðskiptablaðið í dag að endurskipulagning íslenska bankakerfisins gangi allt of hægt.

Á meðan bankarnir nái ekki að endurskipuleggja sig sé atvinnulífinu að blæða út vegna þess að það fái enga bankaþjónustu.

Jón gagnrýnir einnig að ekkert skuli liggja fyrir um fjármögnun nýju bankanna, né hversu mikið eigið fé þeirra verður eða hvernig það verður lagt til og ekki heldur hvernig þeir verða fjármagnaðir til frambúðar.

„Þeir ná ekki að styðja við atvinnulífið í landinu eða viðhalda rekstri þeirra félaga sem eru lífvænleg. Sumir eru búnir að setja sér einhver viðmið um hvað á að ráða því hvaða félög verða studd áfram í rekstri og hver ekki. Enn eru það viðmið vegna þess að menn hafa ekki haft fé til að viðhalda þessum rekstri.

Enn er verið að færa fé á milli efnahagsreikninga gömlu og nýju bankanna og mér sýnist á öllu að það verði ekki bara þrír ríkisbankar heldur sex. Þ.e.a.s. nýju bankarnir þrír og svo gömlu bankarnir þrír. Í gömlu bönkunum er myndarlegur efnahagsreikningur sem þarf að viðhalda. Það er ekki bara fimm manna skilanefnd sem situr yfir því. Það þarf að ráða þangað fólk til að hirða um eignir og gæta þess að verðmæti glatist ekki," segir Jón.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .