Jón Þórisson hefur verið látinn hætta sem forstjóri VBS fjárfestingarbanka og starfsemi bankans verður flutt í hentugra húsnæði á næstunni.

Þetta er haft eftir Hróbjarti Jónatanssyni, sem situr í slitastjórn bankans.

VBS er sem stendur í slitameðferð og starfsemi bankans verður að öllum líkindum lögð niður, enda ekkert fé eftir í sjóðum hans. Nú stendur yfir vinna við að finna út hver eiginleg eignarstaða bankans er og leggja mat á hana.

Höfuðstöðvar VBS hafa verið að Borgartúni 26 í sama húsi og átti að hýsa höfuðstöðvar Gnúps og Baugs áður en þau félög féllu.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að sumir kröfuhafar bankans séu afar ósáttir við að VBS hafi á síðasta ári átt í stórum viðskiptum þar sem eignir með verðgildi hafi verið færðar til valdra kröfuhafa. Telja þeir að VBS hafi haldið sér á lífi til að láta líða nægilega langan tíma frá tilfærslunum að það verði ekki hægt að rifta þeim.