Fjárfestingarfélag sem Jón Þórisson, fyrrum aðstoðarforstjóri Íslandsbanka, leiðir hefur keypt 5,5% eignarhlut í VBS fjárfestingarbanka, að því fram kemur í fréttatilkynningu. Við kaupin mun Jón hefja störf hjá bankanum og leiða fyrirtækjasvið og viðskiptaþróun VBS.

?Við Jón áttum mjög gott samstarf fyrir rúmum áratug, fyrst í Iðnaðarbanka og síðar Íslandsbanka. Við þekkjumst því vel. Það er mikill fengur að kröftum Jóns í okkar hóp og ekki síður fögnum við því trausti sem kemur fram í fjárfestingu hans í VBS," segir Jafet S. Ólafsson, framkvæmdastjóri VBS í fréttatilkynningunni.

VBS fékk fjárfestingarbankaleyfi þann 9. desember 2005, hjá fyrirtækinu starfa 24 manns. VBS er umboðsaðili Carnegie fjárfestingarbankans á Íslandi og hefur séð um sölu á sjóðum Carnegie um árabil.

Framkvæmdastjóri er Jafet S. Ólafsson og stjórnarformaður Frosti Bergsson.