Jón Þórisson, fyrrum forstjóri VBS fjárfestingarbanka, gerði 35 milljóna króna launakröfu í þrotabú bankans. Þetta sést á lista yfir kröfuhafa bankans sem dreift var á kröfuhafafundi í desember. Viðskiptablaðið hefur listann undir höndum. Slitastjórn VBS hefur ekki tekið afstöðu til launakröfu Jóns.

Nokkrir aðrir starfsmenn gera einnig launakröfur í búið. Þær eru þó mun lægri en í tilfelli Jóns og nema frá rúmum 500 þúsund krónum upp í um þrjár milljónir króna.

Lýstar kröfur í þrotabú VBS námu 48 milljörðum króna. Eftir endurmat á eignum bankans eru þær metnar á 9,9 milljarða króna. Um 91% þeirra er veðsett tveimur kröfuhöfum. Aðrir kröfuhafar þurfa því að skipta á milli sín 859 milljónum króna.