Embætti sérstaks saksóknara fór ekki fram á framlengingu á farbanni yfir Jóni Þorsteini Jónssyni, fyrrum stjórnarformanni Byrs, sem rann út í vikunni.

Hann hafði verið úrskurðaður í farbann vegna rannsóknar embættisins á tveimur kaupum Exeter Holdings á stofnfjárbréfum í Byr fyrir um milljarð króna í október og desember 2008.

Jón Þorsteinn hefur stöðu grunaðs manns í rannsókninni. Fréttablaðið greindi frá því á föstudag að Jón Þorsteinn hefði verið handtekinn í kjölfar húsleita sem gerðar voru hjá Byr og MP banka í lok nóvember og hann verið yfirheyrður í nálega sólarhring.

Hann hafði þá nýverið flutt lögheimili sitt til London og því þótti ástæða til að óska eftir farbanni yfir honum. Jón Þorsteinn er eini einstaklingurinn sem sérstakur saksóknari hefur beitt farbannsúrræði.