Jón Finnbogason hefur verið ráðinn forstöðumaður skuldabréfa hjá Stefni. Jafnframt mun Jón gegna stöðu staðgengils framkvæmdastjóra. Kemur þetta fram í tilkynningu.

Jón starfaði áður sem aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka og þar áður sem forstjóri Byrs hf. Áður en Jón gekk til liðs við Byr var hann starfsmaður Rekstrarfélags Kaupþings banka (nú Stefnir) sem sjóðstjóri sérhæfðra skuldabréfasjóða. Einnig starfaði Jón við stöðutöku og viðskiptavakt á skuldabréfamarkaði hjá eigin viðskiptum Kaupþings. Jón hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 1998.

Jón útskrifaðist sem lögfræðingur frá HÍ 1998 og fékk lögmannsréttindi árið 2002. Jafnframt hefur hann lokið verðbréfanámi. Jón hefur jafnframt setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og stofnana. Jón hefur verið formaður íþróttafélagsins Gerplu frá árinu 2006. Jón er giftur Lindu Björk Logadóttur og eiga þau fimm börn.