Jón Árnason, einn af hugmyndasmiðum hjá Íslensku auglýsingastofunni hefur verið ráðinn í starf „creative director“ hjá auglýsingastofunnar ENNEMM. Jón leiddi m.a. auglýsingavinnu fyrir Icelandair og tryggingafélagið Vörð. Auglýsingarnar unnu til verðlauna á auglýsingahátíðinni Ímark, Lúðrinum og á FÍT 2013, verðlaunahátíð Félags íslenskra teiknara.

Jón er reynslubolti mikill en hann á að baki rúmlega 15 ára starf í auglýsingageiranum hér á landi og í New York í Bandaríkjunum.

Fram kemur í tilkynningu um ráðninguna að Jón hefur víðtæka reynslu af markaðsmálum á sviði mörkunarvinnu og af faglegri umsjón með gerð auglýsingaherferða. Auk Íslensku Auglýsingastofunnar hefur Jón starfað hjá Jónsson & Le´macks, Góðu fólki og Bozell í New York.

Jón hefur setið í stjórn FÍT, Félagi íslenskra teiknara og sinnt dómnefndarstörfum fyrir Ímark-Lúðurinn, Scandinavian Advertising Awards og Cresta International Advertising.