Jón S. von Tetzchner hefur greint frá því að hann sé að hætta sem forstjóri Opera Software ASA fyrirtækisins sem framleiðir samnefndan netvafra. Hann er stofnandi fyrirtækisins og hefur starfað þar í 18 ár. Brottför hans hefur vakið mikla athygli í Noregi enda verið áberandi í viðskiptalífinu þar. Lars Boilesen tekur við af honum en Jón mun starfa áfram hjá félaginu.

Félagið var skráð í kauphöll 2004 og hefur hækkað skarpt en með reglulegum dýfum. Þannig hafa bréf félagsins lækkað mikið undanfarið. Félagið er með um 100 milljónir notenda um allan heim.

Jón og Geir Ivansöy áttu 47% hlut í félaginu við skráningu þess en þeir eru stofnendur þess. Jón hefur séð um rekstrarhlið þess á meðan Geir hefur verið með forritunarvinnuna á sinni könnu. Jón mun héðan í frá vinna við stefnumótun hjá félaginu.

Jón er íslenskur að hálfu en hann fæddist í Reykjavík 1967 og bjó hér á landi þar til hann hélt til háskólanáms í Noregi. Hann ber með sér nokkurn fjölda ættarnafna og hefði getað bætt Kaldalóns-nafninu við ef honum hefði boðið svo við að horfa.