*

þriðjudagur, 17. september 2019
Innlent 22. ágúst 2013 21:01

Jón S. von Tetzchner kaupir stóran hlut í Spyr

Stofnandi norska hugbúnaðarfyrirtækisins Opera Software er fyrsti karlmaðurinn í hluthafahópi Confirmed News.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Haraldur Guðjónsson

Jón S. von Tetzchner hefur keypt stóran hlut í fyrirtækinu Confirmed News ehf., sem á og rekur samskiptamiðilinn Spyr.is. Jón er fyrsti karlmaðurinn sem fjárfestir í félaginu og verður hann á meðal stærstu hluthafa þess. Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, vildi ekki tjá sig um kaupverðið þegar eftir því var leitað. 

Rakel er stærsti hluthafi Confirmed News með 30% hlut en stjórnarformaðurinn Helga Ólafsson á 20%. Aðrir hluthafar auk Jóns og Grétu Björk Valdimarsdóttur fjárfestingarfélagið Naskar, sem er í eigu níu kvenna. 

Hefur flutt milljarða til landsins

Jón stofnaði norska hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software sem þróaði samnefndan netvafra árið 1995 og var hann forstjóri fyrirtækisins fram til ársins 2010. Þegar hann hætti störfum átti hann 15% hlut í Opera Software. Jón á enn rúman 3,5% hlut í fyrirtækinu í gegnum félagið Vivaldi Invest AS og er hann áttundi stærsti hluthafi þess. Miðað við gengi hlutabréfa Opera Software í norsku kauphöllinni við lokun hennar í dag nemur markaðsverðmæti hlutafjáreignar félags Jóns tæpum 1,7 milljörðum króna. 

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr á árinu að Jón hafi fjárfest talsvert hér á landi upp á síðkastið og flutt um þrjá milljarða króna í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans m.a. í gegnum félagið Vivaldi í því skyni. Hann á m.a. hlut í felögunum Hringdu, Oz, Budin og SmartMedia. Hann hefur auk þess fjárfest nokkuð í fasteignum hér á landi.