Arev Management, félag í eigu Jóns Scheving Þorsteinssonar, hefur eignast 30% hlut í breska tískuvörufyrirtækinu Ghost, samkvæmt upplýsingum breska dagblaðsins The Times. Einnig mun Kevin Stanford, einn af stofnendum Karen Millen og samstarfsaðili Baugs í Bretlandi, eignast 30% hlut.

Blaðið segir að viðskiptin nemi fimm milljónum punda, sem samsvarar 557 milljónum íslenskra króna. Ekki hefur komið fram hvort Baugur komi að kaupunum.

Hönnuðurinn Tanya Sarne hefur ákveðið að selja niður 80% hlut sinn og hún mun eiga 32% eftir viðskiptin, segir The Times. Viðskiptafélagi Sarne, Ris Fatah, mun halda eftir 8% hlut í Ghost. Sarne mun vinna áfram hjá fyrirtækinu.