Greint var frá því í morgun að Jón Björnsson, forstjóri Festar, hafi látið af störfum sem forstjóri félagsins.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Jón að hann viti ekki hvað taki við hjá sér nú í framhaldinu.

„Nú er planið bara að taka sér smá frí, en það er svo sem nóg að gera hjá manni í mínum stjórnarstörfum og öðrum verkefnum, þannig nú er bara að spá í spilin og sjá hvað gerist,“ segir Jón.

Aðspurður hvort hann hafi vonast eftir því að verða forstjóri sameinaðs félags N1 og Festar segir Jón að hann hafi aldrei gert sér það í hugarlund.

„Ég hafði ekki gert mér neinar hugmyndir um að verða forstjóri sameinaðst félags, enda var N1 að kaupa okkur en ekki öfugt því datt mér það ekki í hug,“ segir Jón.

Forstjóri sameinaðs félags verður Eggert Þór Kristófersson, en hann hefur setið í forstjórastól N1 frá febrúar 2015.

Jón hefur starfað sem forstjóri Festar frá 2014 en hann mun áfram starfa sem stjórnarformaður Krónunnar. Áður en hann tók við forstjórastól Festar gegndi hann meðal annars starfi for­stjóra ORF Líf­tækni, Magasin du Nord í Kaup­manna­höfn og Haga hf.