Verðbólguhjöðnun í Bandaríkjunum veltur á trúverðugleika bandaríska seðlabankans að mati Jóns Steinssonar, prófessors í hagfræði við Berkeley háskóla, í aðsendri grein í The Economist.

Stýrivextir í Bandaríkjunum voru hækkaðir upp í 1% í byrjun maí til að vinna gegn síhækkandi verðbólgu þar í landi, en samkvæmt nýjustu verðbólgutölum fyrir maí, sem birtar voru á föstudaginn, nam verðbólga á ársgrundvelli 8,6% og hefur ekki verið hærri í um fjörutíu ár. Bandaríski seðlabankastjórinn, Jerome Powell, gaf í skyn eftir síðustu vaxtaákvörðun að búast megi við 0,5 prósentustigs hækkunum á stýrivöxtum í júní og júlí. Ef Jerome Powell stendur við þau orð yrðu það hröðustu aðhaldsaðgerðir Seðlabankans síðan á níunda áratugnum.

Jón fagnar breyttu vinnulagi bandaríska Seðlabankans miðað við í lok síðasta árs þegar bankinn sat aðgerðarlaus hjá þrátt fyrir hækkandi verðbólgu. Búast markaðsaðilar nú við því að stýrivextir í Bandaríkjunum verði um 2,75% í lok þessa árs. Bandaríski seðlabankinn spáði því í mars að verðbólga yrði 4,3% í lok þessa árs og atvinnuleysi 2,7%. Spár af þessu tagi hafa fengið viðurnefnið „gallalaus verðbólguhjöðnun“ (e. immaculate disinflation) af því að þær gera ráð fyrir hratt hjaðnandi verðbólgu þrátt fyrir mjög lágt atvinnuleysi og neikvæða raunstýrivexti.

Síðast þegar verðbólga var jafn há í Bandaríkjunum var mjög sársaukafullt fyrir bandarískt efnahagslíf að ná niður verðbólgu. Á níunda áratugnum, þegar Paul Volcker var seðlabankastjóri, hækkaði seðlabankinn stýrivexti sína upp í 20% sem leiddi til efnahagskreppu.


Trúverðugleiki meiri nú en síðast

Jón bendir á að nú sé reginmunur á trúverðugleika bandaríska seðlabankans, sem sé mun meiri nú en fyrir fjörutíu árum í kjölfar árangurs hans í baráttu við verðbólgudrauginn undanfarna áratugi. Í kringum 1980 hafi hann hins vegar verið búinn að missa trúverðugleika sinn eftir áratug af árangurslausri baráttu við háa verðbólgu. Aukinn trúverðugleiki auðveldi bankanum að stýra verðbólgu en ella.

Ef gallalaus, eða hrein, verðbólguhjöðnun á að eiga sér stað þurfa langtíma verðbólguvæntingar að vera nálægt 2% verðbólgumarkmiði seðlabankans að mati Jóns. Ef svo er, er ekki ósennilegt að verðbólga hjaðni að markmiði eftir því sem áhrif af truflunum vegna kórónuveirufaraldursins og stríðsins í Úkraínu minnki. Í því tilviki sé ekki þörf á harðri aðhaldsstefnu af hálfu seðlabankans, enda atvinnuleysi jafn hátt og í byrjun 2020, eða um 2%.

Jón sér hins vegar tvo mögulega áhættuþætti við þessa bjartsýnu atburðarás. Í fyrsta lagi gæti ekki dregið svo glatt úr áhrifum vegna kórónuveirufaraldursins og stríðsins. Sóttvarnarstefna Kínverja er líkleg til þess að halda áfram að valda röskunum á aðfangakeðjunni, eða þá að enn ein faraldursbylgjan ríði yfir heimsbyggðina. Engin endir er heldur í augsýn í stríðinu í Úkraínu.

Í öðru lagi gæti trúverðugleiki bandaríska seðlabankans dvínað ef verðbólgan verður þrálátari. Á einhverjum tímapunkti munu afsakanir bankans hljóma ótrúverðugri, þó þau eigi rétt á sér. Jón hefur meiri áhyggjur af þessum möguleika og því telur hann að bankinn eigi fremur að auka taumhald peningastefnunnar meira en bjartsýnustu spár gera ráð fyrir.

Að lokum segir hann að það verði að öllum líkindum sársaukafullt fyrir bandarískt efnahagslíf að ná niður verðbólgunni. Hann er samt sem áður bjartsýnn að það verði ekki jafn kostnaðarsamt að ná niður verðbólgu eins og fyrri reynsla gefur til kynna. Bandaríski seðlabankinn hafi gefið til kynna að hann muni hækka stýrivexti í 0,5 prósentustiga skrefum eins og oft og hann þarf sem gæti þýtt allt að fjögurra prósentastigs hækkun það sem af er ári. Að ná niður verðbólgu án þess að valda of miklum sársauka velti allt vá því hvort almenningur trúi því að bandaríski seðlabankinn sé tilbúinn að gera allt sem þarf, hvað sem það kostar.