Vatnsbóndinn og athafnamaðurinn Jón Ólafsson seldi í byrjun sumars hús sitt í London í Bretlandi. Jón flutti ásamt fjölskyldu sinni til London árið 1998 og hafði þar heimilisfesti allt þar til hann flutti lögheimili sitt til Hong Kong fyrir að verða þremur árum. Ástæða þess að hann seldi húsið í Bretlandi var flutningurinn til Asíu, að sögn Jóns.

Þegar Viðskiptablaðið ræddi við Jón í tengslum við flutninginn til Asíu rétt fyrir jólin árið 2011 sagði hann ástæðuna þá að markaðssetning á vatni undir vörumerki Icelandic Glacial í Asíu standi sem hæst og því mikilvægt að búa í Hong Kong. Jón er stofnandi, einn af helstu hluthöfum og stjórnarformaður Icelandic Water Holdings. Verksmiðja fyrirtækisins er eins og margoft hefur komið fram skammt fyrir utan Þorlákshöfn og er vatnið flutt þaðan um heim allan.

Jón á nú hús í þremur löndum. Hann hefur um árabil átt hús í kvikmyndabænum Cannes í Frakklandi og dvelur hann þar þegar hann sækir árlegu kvikmyndahátíðina þar. Þá á Jón hús við Baldursgötuna í Reykjavík.

Ítarlegt viðtal við Jón Ólafsson má lesa í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag, 24. júlí 2014. Í viðtalinu fer Jón yfir ferilinn, hvað hann gerði eftir að hann seldi allar eignir sínar hér á landi síðla árs 2003 og hvar hann sér sig í kringum áttrætt. Þangað til eru 20 ár en Jón fagnar 60 ára afmæli 6. ágúst næstkomandi. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .