Jón Sigurðsson, fyrrum framkvæmdastjóri Stoða/ FL Group, var látinn hætta hjá félaginu um miðjan maí í fyrra í kjölfar þess að höfðað var mál á hendur honum og nokkrum öðrum einstaklingum í New York fyrir að hafa rænt bankann innanfrá. Þrotabú Glitnis, sem höfðaði málið, er stærsti eigandi Stoða með um 26% eignarhlut. Því máli var vísað frá fyrr á þessu ári.

Í ársreikningi Stoða kemur fram að Jón hafi fengið greiddar 36 milljónir króna á síðasta ári í starfslokagreiðslur. Það er um tvisvar sinnum hærri fjárhæð en sem nemur árslaunum Júlíusar Þorfinnssonar, eftirmanni Jóns, sem fékk 19 milljónir króna greiddar í laun.

Jón situr auk þess enn í stjórn Refresco, stærstu eignar Stoða, fyrir hönd félagsins þrátt fyrir að hafa verið leystur frá störfum. Eignarhlutur Stoða í Refresco er, samkvæmt ársreikningi drykkjarvörurisans, í gegnum hollenska eignarhaldsfélagið Ferskur Holding 1 B.V. Aðrir eigendur þess félags eru Vífilfell og skilanefnd Kaupþings. Þorsteinn M. Jónsson, sem nýverið seldi Vífilfell í skuldauppgjöri sínu við Arion banka, situr enn í stjórn Refresco fyrir hönd Arion samkvæmt heimasíðu Refresco. Auk þeirra tveggja situr Hilmar Þór Kristinsson í stjórninni fyrir hönd íslenskra eigenda fyrirtækisins. Kostnaður Refresco vegna stjórnarsetu fulltrúa Fersks Holding 1 B.V. á árinu 2010 var 200 þúsund evrur, eða um 33 milljónir króna.