Hluthafafundur N1 var haldinn í dag og var Jón Sigurðsson kosinn í stjórnina. Eins og VB.is greindi frá var Jón ekki einn í framboði til stjórnar um sætið, en Helga Björk Eiríksdóttir, fyrrverandi fjárfestatengill Marel og Kauphallarinnar, sóttist einnig eftir því.

Fram kemur í niðurstöðu hluthafafundar að Jón er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og starfar í dag sem starfsmaður sérhæfðra fjárfestinga hjá GAM Management hf. Hann starfaði hjá Stoðum (áður FL Group hf.) frá árinu 2005-2010 og sem forstjóri félagsins frá lokum ársins 2007. Áður starfaði hann sem starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans á árunum 2003-2005 og sem starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar Búnaðarbankans árin 2002-2003. Jón situr í stjórn Refresco BV, Straumnes Ráðgjöf ehf. og Straumnes eignarhaldsfélags ehf.

Í upphafi fundar var einnig tilkynnt að félaginu hefði borist úrsögn Herdísar Drafnar Fjeldsted og Kristjáns Ágústsonar úr varastjórn félagsins. Þá var tillaga um breytingar á samþykktum sem mælir fyrir um brottfall ákvæðis um varamenn í stjórn félagisns var samþykkt.