Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi ráðherra, var á fulltrúaráðsfundi Eirar í dag kjörinn stjórnarformaður hjúkrunarfélagsins.

Fram kemur í tilkynningu frá Eir að meðstjórnendur eru Einar Jón Ólafsson og Hrönn Pétursdóttir koma frá Reykjavíkurborg, Ólafur Haraldsson sem situr fyrir hönd Blindrafélagsins og Blindravinafélags Íslands, Elínbjörg Magnúsdóttir, sem kemur frá stéttarfélaginu Eflingu, Sveinn Guðmundsson situr fyrir hönd SÍBS og Hákon Björnsson fyrir hönd Mosfellsbæjar.

Búið að skipta um nær allt fulltrúaráðið

Eins og margtoft hefur komið fram er rekstur hjúkrunarheimilisins í járnum. Það skuldar rúma átta milljarða króna. Þar af nema skuldir gagnvart íbúum Eirar um tveimur milljörðum króna. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, var stjórnarformaður heimilisins þegar skuldabyrði þess komst í hámæli fyrir mánuði. Hann sagði af sér í kjölfarið og tók Magnús L. Sveinsson við stöðu hans tímabundið. Stjórn hjúkrunarheimilisins fór frá á sama tíma.

Sveinn Magnússon, umsjónarmaður eignaumsýslu Eirar, segir í samtali við vb.is. að síðasta mánuðinn sé búið að skipta út nær öllu fulltrúaráðinu sem kýs formann stjórnar og meðstjórnendur. Tekið var á móti tilnefningum fram á síðustu stundu í gærkvöldi.