Jón Sigurðsson, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Seðlabankastjóri, segir skeytasendingar milli stjórnar Seðlabankans og ríkisstjórnarnarinnar að undanförnu mjög óvenjulegar og hafa komið sér á óvart.

„Miðað við þær opinberu upplýsingar sem við höfum verðum við þó að gera ráð fyrir því að ákvarðanir hafi verið teknar með formlegum og löglegum hætti og að málefnalegt samstarf hafi verið þarna á milli,“ sagði Jón í þættinum Markaðurinn á Stöð 2 í morgun.

„En Seðlabankinn verður að skýra betur en komið hefur fram þennan misskilning eða ágreining sem virðist vera ástæða skeytasendinganna.“

Stjórnandi þáttarins, Björn Ingi Hrafnsson, spurði Jón hvort hann hefði e.t.v. sofnað á verðinum á sínum tíma, en Jón gegndi stöðu Seðlabankastjóra þegar Icesave-reikningar Landsbankans voru stofnaðir.

„Ég er einn af þeim sem hafa orðið „ábyrgð“ skrifað á ennið á sér,“ sagði Jón.

„Ég tek til mín ábyrgð og geri mér grein fyrir því að þó svo að atburðarrásin sem við erum að tala um núna er ekki lengri en 12-15 mánuðir er alveg gagnslaust fyrir menn eins og mig að reyna að komast undan því að bera ábyrgð á aðdragandanum að þessu.“

Jón lýsti einnig aðdáun sinni á frammistöðu forsætisráðherra og viðskiptaráðherra að undanförnu.

„Mér hefur þótt aðdáunarvert að sjá hve traustlega þeir hafa reynt að taka á þessum aðstæðum,“ sagði Jón.

„Við verðum að standa sem þéttast að baki þeim.“

Aðspurður um hugmyndir manna um upptöku norskrar krónu hér á landi sagðist Jón ekki telja nokkra hæfu í slíkum hugmyndum.