Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar hf., mun loka Nasdaq markaðnum við Times Square í New York í kvöld við hátíðlega athöfn, en fyrirtækið fagnar 10 ára skráningarafmæli sínu um þessar mundir. Össur var skráð í Kauphöllina í október árið 1999. Þórður Friðjónsson, forstjóri Nasdaq Omx kauphallarinnar á Íslandi mun bjóða Jón og starfsfólk Össurar velkomið að MarketSite sem gestgjafi Nasdaq Omx á athöfninni að því er segir í tilkynningu.

Nasdaq hefur um árabil boðið skráðum fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum að opna eða loka Nasdaq markaðnum daglega að MarketSite, Times Square í hjarta New York. MarketSite turninn er 'lifandi' allan sólarhringinn og veitir stöðugt allra nýjustu upplýsingar úr viðskiptalífinu ásamt auglýsingum. Turninn er oft notaður í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum sem og í prentfjölmiðlum.

Innan í MarketSite turninum hafa helstu alþjóðlegu viðskiptamiðlar aðstöðu, m.a. CNBC, Bloomberg TV, Reuters, NDTV Profit, CNBD India, Business Week TV og fleiri sem ná til milljóna áhorfenda um allan heim með allra nýjustu upplýsingar af markaðnum. Þátttaka í opnunar-/lokunarhátíðum eykur því tvímælalaust á sýnileika boðsfyrirtækja á alþjóðlega vísu segir í tilkynningu.