Janúar síðastliðinn var versti mánuður Össurar frá upphafi, að sögn Jóns Sigurðssonar forstjóra félagsins, sem kynnti afkomu þess nú í hádeginu. Hann sagði ennfremur að mars hefði verið mjög góður, en að í apríl væri salan aftur orðin slök. Þetta kom fram þegar Jón var að fjalla um framtíðarhorfur og útskýra hvers vegna erfitt væri að spá fyrir um framhaldið.

Mikil óvissa

Jón sagði að félaginu hefði í gegnum tíðina gengið vel að spá fyrir um horfur í rekstri, en við síðasta uppgjör hefðu stjórnendur ekki talið sig geta sett fram spá. Nú hefði verið sett fram varfærin spá, sem geri ráð fyrir óbreyttri sölu í ár miðað við fyrra ár. Jón lagði áherslu á að óvissa væri mikil og hann myndi ekki eftir öðrum eins sveiflum á löngum ferli í þessum geira.

Hann sagði einnig að annar ársfjórðungur væri jafnan betri en sá fyrsti og að hann reiknaði með að svo yrði einnig nú. Þó væru skiptar skoðanir um þetta innan fyrirtækisins.

Sterk fjárhagsstaða

Almennt talað lögðu bæði Jón og Hjörleifur Pálsson fjármálastjóri áherslu á að fjárhagsstaða félagsins væri sterk og að engin sérstök vandamál væri að finna í lausafjárstöðu félagsins eða efnahag almennt. Hjörleifur tók sérstaklega fram að skilyrði í lánasamningum væru fjarri því að vera í hættu, en slíkt skiptir miklu í því efnahagsástandi sem nú ríkir í heiminum.