Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur sagt af sér formennsku flokksins og mun Guðni Ágústsson, varaformaður, taka við stöðu formanns, segir í tilkynningu á heimasíðu Framsóknar.

"Við núverandi aðstæður er algerlega nauðsynlegt að formaður Framsóknarflokksins hafi aðgang að ræðustól Alþingis í stjórnmálabaráttunni sem aðaltalsmaður og leiðtogi flokksins. Þetta er skilyrði fyrir markvissu og kröftugu stjórnmálastarfi og fyrir einingu í flokknum," segir Jón.

"Ég náði ekki kjöri í Alþingiskosningunum 12. maí sl. og hef tekið þá ákvörðun að segja af mér formennsku í Framsóknarflokknum. Ég hef undanfarna daga kynnt þessa ákvörðun öðrum forystumönnum flokksins og trúnaðarmönnum í kjördæmi mínu. Beint liggur fyrir samkvæmt lögum Framsóknarflokksins að varaformaður taki við stöðu formanns við aðstæður sem þessar."

"Ég flyt ykkur öllum þakkir fyrir traust, stuðning og vináttu. Ég mun leggja mig fram um að aðstoða við uppbyggingu og eflingu Framsóknarflokksins. Ég er sannfærður um að erindi Framsóknarmanna við íslensku þjóðina er brýnna en nokkru sinni fyrr," segir Jón.