Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir að fjölmiðlar í Danmörku hafi sýnt fyrirtækinu talsverðan áhuga eftir að það ákvað að óska eftir skráningu hlutabréfanna í kauphöllina í Kaupmannahöfn.

Hann var til dæmis í viðtali við TV2 Finans í morgun.

Hann segir að fyrirtækið hafi stefnt að því lengi að skrá sig í kauphöll erlendis. „Þetta er eðlilegt skref í framþróun fyrirtækisins," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið. Hann var staddur í Kaupmannahöfn þegar blaðamaður náði tali af honum.

Stjórn fyrirtækisins ákvað formlega í gær að sækja um skráningu í kauphöllina í Kaupmannahöfn og umsókn var send inn í dag. Vonast er til þess að skráningin verði samþykkt í næstu viku og að viðskiptin geti byrjað fljótlega upp frá því.

Fram kom í tilkynningu félagsins í gær að stjórnin íhugi 5 til 7% hlutafjáraukningu í framhaldi af skráningunni til að auka viðskiptin með bréfin.

Áfram trúir íslenskum fjárfestum

Hjörleifur Pálsson, fjármálastjóri Össurar, segir að markaðurinn úti sé góður fyrir fyrirtæki eins og Össur sem eru í heilbrigðisgeiranum. Þar sé  mikil þekking á slíkum fyrirtækjum og aðgangur sé góður að alþjóðlegum fjárfestum.

Þegar hann er spurður út í markaðinn hér segir Hjörleifur að þetta skref Össurar hafi engar neikvæðar afleiðingar fyrir íslenska fjárfesta. „Þetta er jákvætt fyrir alla. Við verðum áfram trúir þeim íslensku fjárfestum sem hafa stutt okkur frá 1999 þegar Össur var skráður á íslenskan markað."

Hann segir aðspurður að forsvarsmenn Össurar hafi í nokkur ár kynnt fyrirtækið reglulega fyrir fjárfestum í Danmörku, Svíþjóð og í Bandaríkjunum. Þar hafi þeir til dæmis kynnt fyrirtækið á fjárfestaráðstefnum fyrir fyrirtæki á heilbrigðissviði.

Forsvarsmenn Össurar hafi viljað vera búnir að því ef til þess kæmi að fyrirtækið sæi færi á því að vaxa og þyrfti að leita að fjármagni. Það sé því ekki verið að kynna fyrirtækið fyrst nú fyrir fjárfestum úti.

Geta flutt hlutabréfin út

Spurður hvort umræðan um íslensku fjármálakreppuna hafi einhver áhrif á viðtökur Össurar í Danmörku svarar Hjörleifur því til að svo sé ekki. Fyrirtækið sé ekki tengt við erfiðleikana í fjármálakerfinu hér heima. Það sé enda gott fyrirtæki sem sé sterkt í vöruþróun og rannsóknum og búi til raunverulegar vörur sem séu seldar.

„Ég upplifi það þannig að fólk gleðjist yfir því að góðir hlutir séu að gerast á Íslandi," segir hann enn fremur. „Ég upplifi það ekki þannig að heimurinn sé búinn að afskrifa Ísland."

Jón Sigurðsson bendir á í samtali við Viðskiptablaðið að mikilvægt sé fyrir fjárfesta að vita að samkvæmt gjaldeyrisreglum Seðlabankans geti þeir sem keyptu hlutabréf í Össuri fyrir 1. apríl 2009 flutt þau til Danmerkur. Á sama tíma sé vert að hafa í huga að skilaskylda sé á gjaldeyri fyrir Íslendinga til landsins séu hlutabréfin seld úti.