Stjórn Sýnar var kjörin á hluthafafundi í dag og kemur Jón Skaftason nýr inn í aðalstjórn félagsins. Jóhann Hjartarson, Páll Gíslason, Petrea I. Guðmundsdóttir og Sesselía Birgisdóttir voru kjörin í áframhaldandi setu í aðalstjórn. Þetta kemur fram í tilkynningu Sýnar til Kauphallarinnar.

Jón Skaftason, sem er forsvarsmaður Gavia Invest næst stærsta hluthafa Sýnar, kemur inn í stjórnina í stað Hjörleifs Pálssonar sem hafði gefið það út að hann sóttist ekki eftir endurkjöri.

Í varastjórn voru Daði Kristjánsson og Salóme Guðmundsdóttir kjörin. Á stjórnarfundi sem fram fór í kjölfarið var ákveðið að Petrea I. Guðmundsdóttir skyldi starfa sem formaður stjórnar og Jóhann Hjartarson sem varaformaður.

Sjá einnig: Sjö sækjast eftir stjórnarsetu í Sýn

Aðdragandinn að boðun hluthafafundarins var bréf Gavia Invest til stjórnar Sýnar þar sem fjárfestingafélagið krafðist stjórnarkjörs en félagið festi kaup á 16,08% hlut í félaginu fyrr í sumar. Gavia á nú 10,92% hlut og er næst stærsti hluthafi Sýnar.