Jón Ólafsson, prófessor, verður formaður starfshóps sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Aðrir í hópnum eru Ólöf Embla Eyjólfsdóttir, MSt í heimspeki, Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri, Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri og Sigurður Kristinsson, prófessor.

Starfshópurinn skal skila skýrslu um störf sín eigi síðar en 1. september 2018 en telji hann ástæðu til getur hann einnig sett fram afmarkaðar tillögur fyrr segir í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.

Hópnum er falið að taka mið af starfi sem unnið hefur verið í tengslum við opinber heilindi hérlendis og erlendis, til dæmis væntanlegri fimmtu úttektarskýrslu GRECO, sem fjallar meðal annars um vernd gegn spillingu meðal æðstu handhafa framkvæmdavalds.

Skipun starfshópsins er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, en þar segir meðal annars:

„Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Einn þáttur í því er að yfirfara reglur um hagsmunaskráningu bæði ráðherra og þingmanna með hliðsjón af ábendingum og alþjóðlegum viðmiðum. Annar þáttur er breytingar á lögum sem varða vernd uppljóstrara og umbætur í umhverfi stjórnsýslu og viðskipta, meðal annars í takt við ábendingar alþjóðastofnana.“