Jón Snorri Snorrason, fyrrverandi lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi eigandi iðnfyrirtækisins Sigurplasts, hefur verið ráðinn til starfa við háskólann á Bifröst. Jón Snorri var dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skilasvik í fyrra fyrir að hafa veðsett stóra hluta hlutabréfa í Sigurplasti. Málið var eitt nokkurra sem höfðuð voru gegn honum í kjölfar þess að Sigurplast fór í þrot.

Jón Snorri keypti rekstur Sigurplasts með fleirum af Plastprenti árið 2007. Fyrirtækið fór í þrot árið 2010 eftir að Arion banki gjaldfelldi 1,1 milljarða króna gengislán fyrirtækisins. Skiptastjóri höfðaði nokkur mál á hendur fyrri eigendum fyrirtækisins.

Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, seldi Sigurplast til nýrra eigenda vorið 2012. Jón Snorri fór í leyfi frá Háskóla Íslands í fyrravor.

DV fjallar um málið í dag og hefur eftir Vilhjálmi Egilssyni, rektor Háskólans á Bifröst, að hann velti því upp hvort hægt sé að spá í það hvaða refsibrot væru tæk. Spurður að því hvort ekki sé betra að hafa starfsmann með hreina sakaskrá svarar Vilhjálmur: „Það eru nú allir sammála um það. Svo er það spurning um það hvenær á að afskrifa viðkomandi talent. Hvar liggja mörkin?“