Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, hefur ákveðið að áfrýja dómi i máli sem hann höfðaði gegn Þorvaldi Gylfasyni prófessor til Hæstaréttar. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Þorvald af öllum kröfum Jóns Steinars.

„Tilefni málsins voru ummæli Þorvaldar sem fólu í sér dylgjur um að Jón Steinar hefði með leynd samið kæru til Hæstaréttar vegna stjórnlagaþingskosninga og stjórnað afgreiðslu hennar. Með ummælunum dylgjaði Þorvaldur þannig um alvarleg brot Jóns Steinars í embætti sem dómari. Myndu þau hafa varðað hann starfsmissi og refsingu ef sönn væru,“ segir í yfirlýsingu frá Jóni Steinar.

Jón Steinar telur að ef þessi dómur fái að standa geti menn framvegis án ábyrgðar og að ósekju dylgjað um refsiverða háttsemi tiltekinna dómara við dómsýslu þeirra. Sé þetta gildandi réttur í landinu þá sé nauðsynlegt að almenningur fái vitneskju þar um.