„Það er eitthvað sem hann hlýtur að ráða við, maðurinn sem er svona borubrattur til munnsins,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt spurður að því hversu hárra miskabóta hann krefst í meiðyrðamáli gegn Þorvaldi Gylfasyni, prófessor við Háskóla Íslands. Þorvaldur skrifaði grein í ritröð háskólans í Munchen í Þýskalandi sem birt var í vor. Þar segir Þorvaldur að Jón Steinar hafi lagt drög að einni af kærunum sem Hæstiréttur nýtti til að ógilda kosningu til stjórnlagaráðs. Jón Steinar var þá dómari við Hæstarétt. Hann fór í mál við Þorvald og krefst ómerkingar ummæla, miskabóta og refsingar. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Jón Steinar segir í samtali við vb.is ekki muna hversu hárra misbóta hann krefjist. Í raun skipti þær ekki öllu máli.

„Það hefur verið sagt eitthvað neikvætt um mig og reyndar dóminn allan vegna þessarar afgreiðslu. Ég segi ekki að ég sé særður holundarsári yfir því. Enda er þetta svo mikið rugl og vitleysa að það hálfa væri nóg,“ segir hann.

Ekki hægt að segja hvað sem er

Meginkröfuna segir Jón Steinar þá að Þorvaldur beri ábyrgð á ummælum sínum.

„Við hljótum alltaf að spyrja okkur að því hvort menn geti farið fram með hvaða ásakanir sem er án þess að bera á því ábyrgð. Ég tel að þegar hlut á dómari við Hæstarétt sem er að gegna einu viðkvæmasta starfi í ríkiskerfinu og menn víkja orðum að honum með þeim hætti að þeir dylgja um það að hann hafi brotið gegn starfsskyldum sínum þannig að refsivert væri, ef satt væri, þá tel ég rétt að menn sem slíkt gera, sérstaklega ef þeir eru prófessorar við háskóla, beri ábyrgð á því. Þeir geta ekki haft neitt við það að athuga sjálfir. Menn sem viðhafa slík ummæli hljóta að bera ábyrgð á þeim. Ég trúi ekki öðru en að maðurinn hafi sagt þetta undir þeim formerkjum,“ segir Jón Steinar.