Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómar, er harðorður í garð þeirra dómara sem sýknuðu Þorvald Gylfason prófessor í meiðyrðamáli Jóns Steinars gegn honum.

Í grein sem Jón Steinar skrifaði í Morgunblaðið og birt á Pressunni spyr hann hvort dómararnir þrír, sem allir eru héraðsdómarar, telji sig hafa aukið líkur sínar á að hljóta dómaraembætti í Hæstarétti á næstunni með dómnum. „Þau halda áreiðanlega að framtakið hafi verið þóknanlegt þeim sem þau telja að þar ráði mestu í reynd. Þau hafa að minnsta kosti sýnt að hefðbundin lagaleg aðferð tefur þau ekki frá að komast að þóknanlegum niðurstöðum,“ segir í greininni.

Jón Steinar stefndi Þorvaldi vegna ummæla um að orðrómur væri uppi um að Jón, sem var þá sitjandi Hæstaréttardómari, hefði samið eina af kærunum, sem bárust til Hæstaréttar um gildi kosninga til svonefnds stjórnlagaþings á árinu 2010.

Fastskipaðir dómarar við Hæstarétt töldu sig ekki geta dæmt í málinu og voru þrír héraðsdómarar því skipaðir dómarar í málinu.