Jón Steinar Gunnlaugsson segist í bók sinni „Í krafti sannfæringar“ aldrei hafa kosið Þorstein Pálsson í formannskjöri í Sjálfstæðisflokknum. Jón Steinar og Þorsteinn voru báðir í svokölluðum Eimreiðarhópi ásamt Davíð Oddsyni , Magnúsi Gunnarssyni, Geir H. Haarde, Kjartani Gunnarssyni, Brynjólfi Bjarnasyni, Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og fleirum.

„Þó að mér væri frekar hlýtt til Þorsteins Pálssonar og teldi hann að mörgu leyti mætan mann, verð ég að viðurkenna að ég greiddi honum aldrei atkvæði í stól formanns í Sjálfstæðisflokknum, þó að allir vinir mínir og kunningjar styddu hann. Það stafaði einfaldlega af því að ég taldi hann ekki til þessarar forystu fallinn. Hann skorti allt sem sem kalla má forystuhæfileika, sem að mínum dómi felast aðallega í því að geta blásið mönnum baráttuanda í brjóst og hrifið þá með sér í þágu þeirra verkefna sem sinna þarf.“ segir Jón Steinar í bók sinni.

Laxveiðiferð með Sjóva-Almennum hf.

Jón Steinar rekur einnig í bókinni samskipti sín við Þorstein þegar sá síðarnefndi gegndi embætti dómsmálaráðherra. Í ágúst 1993 sendu fimm lögmenn, Jón Steinar, Atli Gíslason, Sigurður G. Guðjónsson, Viðar Már Matthíasson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson Þorsteini bréf og sögðu vátryggingarfélögin í landinu hafa haft óeðlileg áhrif á setningu skaðabótalaga og rýrt réttarstöðu tjónþola sem lögin taka til. Sagði í bréfinu að prófessor við Háskóla Íslands, sem hafði gefið álit sitt á tilteknu atriði í lögunum, hafi um árabil gegnt föstu aukastarfi sem ráðgjafi hjá tryggingarfélagi sem sá um endurtryggingar fyrir flest tryggingarfélögin og gerði enn.

Jón Steinar segir að Þorsteinn hafi engan áhuga haft að leiðrétta þetta misrétti. Hann segir jafnframt að Þorsteinn hafi sjálfur haft tengsl við tryggingarfélögin, en bróðir hans starfaði sem lögfræðingur hjá einu þeirra. Auk átti maki formanns allsherjarnefndar, sem var sú þingnefnd sem fór með málið hjá alþingi, sæti í stjórn eins tryggingarfélaganna.

Jón Steinar víkur nánar að tengslunum í neðanmálsgrein í bókinni.

„Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki þegar fundurinn [innsk. fundur með dómsmálaráðherra] var haldinn að bæði ráðherrann og formaður þingnefndarinnar höfðu árið á undan fari í laxveiðiferð með stjórnendum Sjóvar-Almennra hf. í boði þess félags, eins og Helgarpósturinn upplýsti lesendur sína um 18. maí 1995.