„Mótbyrinn sem ég nefni hafði ekkert að gera með úrlausn einstakra dómsmála heldur umfjöllun um endurbætur á starfsháttum réttarins,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson í grein í Fréttablaðinu í dag. Þar svarar Jón Steinar gagnrýni Valtýs Sigurðssonar, fyrrverandi ríkissaksóknara, sem birtist í Fréttablaðinu í vikunni. Þar fjallaði Valtýr um ummæli Jóns í fjölmiðlum síðustu daga og sagði meðal annars;

[...] h ann hafi fundið fyrir „mótbyr og andstöðu annarra dómara" og að ákvarðanir hafi verið teknar án aðildar hans. Hann hafi því skilað mörgum sératkvæðum í gegnum tíðina. Jón Steinar virðist eiga erfitt með að skilja af hverju þetta gerðist. Ekki virðist hvarfla að Jóni Steinari að eitthvað af þeim erfiðleikum sem hann telur sig hafa orðið fyrir í réttinum eigi e.t.v. rætur að rekja til persónuleika hans sjálfs.“ Valtýr sagðist að auki telja dómarastarfið henta Jóni Steinari illa vegna þess hve erfitt hann ætti með að taka því þegar ekki væri fallist á skoðanir hans.

Þessar ásakanir telur Jón Steinar fjarstæðu og segist ávallt hafa byggt afstöðu sína á málefnalegum röksemdum „og ekki verið tilbúinn til að breyta henni nema  sýnt hafi verið fram á að mér hafi missést og sterkari rök leiði til annarar niðurstöðu. Ég samþykki ekki niðurstöðu í lögfræðilegu álitamáli fyrir sakir vinskapar,“ segir Jón Steinar og ítrekar þá skoðun sína að dómarar eigi að skila sératkvæði séu þeir ekki sammála niðurstöðu meirihlutans.

Að lokum segir Jón Steinar:

„Þú mátt alveg, Valtýr minn, í leiðinni láta fylgja nokku hrakyrði um mig svo þér líði betur á eftir. Það yrði bara gaman að því. Svo gætum við sameiginlega farið þess á leit við Walter Matthau og Jack Lemmon að leika okkur í kvikmynd - bara ef þeir væru ekki dauðir eins og við verðum bráðum“