Á undanförnum árum má finna dæmi um að misræmis hafi gætt í dómsúrlausnum Hæstaréttar í sambærilegum málum og virðist þá hafa skipt máli hvaða dómarar setið hafi í dómi. Kemur þetta fram í nýrri ritgerð Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi Hæstaréttardómara, en bókið ber heitið Veikburða Hæstiréttur: Verulegra úrbóta er þörf.

Meðal þess sem hann tekur á í bókinni er það hvert fordæmisgildi dóma réttarins geti verið þegar dómarar eru tólf talsins, en allt að 80% mála eru dæmd af þremur dómurum.

„Hvað á dómari að gera ef svo stendur á að þrír aðrir dómarar við réttinn hafa nýlega staðið að dómi í sambærilegu máli og því sem hann fæst við en hann er á annarri skoðun en þeir um lögskýringuna sem beitt var? Á hann að hlýða samvisku sinni og dæma eftir bestu vitund eða á hann að beygja sig í þágu samræmisins? Hvað ef hann telur að meirihluti dómaranna ellefu séu sammála sér? Skiptir það máli? Hvernig á hann þá að kanna þetta? Í fyrri dóminum gætu tveir dómarar hafa myndað meirihluta en einn skilað sératkvæði. Þeir sem vilja að dómari lúti kröfunni um samræmi hljóta að telja að þeir dómarar sem fyrir tilviljun fjalla fyrstir um lögskýringuna ráði henni, sama hversu margir þeir voru. Líklega telja ekki margir að svo skuli vera. Að minnsta kosti geri ég það ekki.“

Hann segir að ósamræmi í dómum sé óhjákvæmileg afleiðing af þriggja dómara kerfinu, en einnig megi leita skýringa í allt of miklum málafjölda sem rétturinn þarf að takast á við og því álagi sem því fylgir. „Svona tilvik eru sjálfsagt skaðlegust þegar um er að ræða sakarefni sem hafa mikla almenna þýðingu í öðrum lögskiptum en aðeins þeim sem dæmt er um.“

Einn dómari réð úrslitum

Sem dæmi um misræmi í dómaframkvæmd nefnir hann tvo dóma sem kveðnir voru upp með eins árs millibili og vörðuðu báðir túlkun á skilmálum skuldabréfa með gengisákvæðum. Í báðum málunum var rétturinn skipaður sjö dómurum og skiptist dómurinn 4-3 í bæði skiptin. Í þeim fyrri, Motormaxdómnum sem gekk 9. júní 2011, taldi meirihluti dómara skuldbindinguna vera í íslenskum krónum miðað við gengi erlendra gjaldmiðla og væri því ógild að því marki. Minnihlutinn taldi hins vegar skuldbindinguna vera í erlendri mynt og því gilda.

Í síðara málinu, Háttardómnum frá 15. júní 2012, komst meirihluti dómara að því að skuldbindingin væri í erlendri mynt og því gild. Vekur Jón Steinar athygli á því að rétturinn var skipaður sömu dómurum í bæði skiptin að einum dómara undanskildum. Réðst niðurstaða í báðum tilvikum af atkvæði þessa eina dómara þannig að sá sem kom nýr inn í síðara málið greiddi þar atkvæði með þeim sem orðið höfðu í minnihluta í fyrra skiptið.

Veikburða Hæstiréttur er gefin út af Almenna bókafélaginu og kom út í dag.