Jón Steinar Gunnlaugsson setur Baugsmálið í samhengi við bankahrunið í nýrri bók, „Í krafti sannfæringar“, sem kom út á dögunum. Veltir hann upp þeirri spurningu hvort niðurstaða málsins hafi leitt til þess að athafnamenn hafi hætt að óttast dómstóla á árunum fyrir hrun.

„Menn geta núna, eftir bankahrunið mikla, velt fyrir sér efninu sem rætt var um í nafnlausa bréfinu um einnota réttarfar. Var þar eitthvað ranglega sagt? Skiptu þessi furðulegu lausatök Hæstaréttar einhverju máli fyrir framvinduna sem síðar varð á Íslandi og við þekkjum núna? Hafði rétturinn til dæmis ekki sagt að möndlið með 10/11 búðirnar væru aðeins viðskipti, þó að þar hafi hinn ákærði virst innleysa mikinn ávinning frá almenningshlutafélaginu, sem hann var forstjóri fyrir, án þess að aðrir stjórnendur hefðu hugmynd um við hvern þeir ættu viðskipti?

Ég er hér ekki að fullyrða um sekt hans. Ég segi aðeins að það hafi verið fullkomlega óforsvaranlegt að fjalla ekki um þessar sakargiftir fyrir dómi og fá þar úr skorið að efni til hvort þessi háttsemi var lögum samkvæm. Getur verið að aðrir viðskiptajöfrar á Íslandi hafi spurt sjálfa sig í framhaldinu, hvort nokkur ástæða væri til að hræðast dómstóla?“