Jón Steinar Gunnlaugsson, fv. hæstaréttardómari, telur að afnema með öllu áhrif sitjandi hæstaréttardómara við skipun nýrra dómara við réttinn.

Þetta sagði Jón Steinar þegar hann ávarpaði nemendur á Bifröst sl. þriðjudag en hann hélt þar erindi á málstofu sem skipulögð var af Nomos, félagi laganema við Bifröst. Jón Steinar fór yfir feril sinn sem hæstaréttardómari, ræddi um það sem að hans mati mætti betur fara í dómstólaskipan landsins  og hugmyndir sínar um endurbætur þar að lútandi.

Jón Steina fjallaði um núverandi fyrirkomulag þar sem iðulega er skipuð nefnd sem fer yfir umsóknir þeirra sem sækjast eftir dómaraembættum og er að meirihluta skipuð samkvæmt tilnefningum  starfandi dómara. Í máli Jóns Steinars kom fram að hann teldi þetta fyrirkomulag leiða til þess að ekki fari fram raunverulegur hæfnisdómur við mat á ráðningu heldur sé þarna einungis verið að velja „nýjan meðlim í dómaraklúbbinn,“ eins og hann orðaði það.

Rétta leiðin að mati Jóns Steinars væri að ráðherra skipaði dómara og að samþykki meirihluta Alþingis þyrfti að liggja fyrir. Hann var sérstaklega spurður að því á fundinum hvort að það væri ekki óheppilegt að Alþingi skipaði hæstaréttardómara þar sem þá væri hætta á að skipanirnar yrðu pólitískar.  Jón Steinar spurði á móti hvort betra væri að „einhver klíka“ réði því hverjir yrðu dómarar. Hann bætti þó við að engin leið væri fullkomin en finna þyrfti þá leið sem væri skást.

Þá sagði Jón Steinar að rík hefð væri fyrir því að dómarar við Hæstarétt hefðu fremur að baki reynslu fræðistörfum frekar en af lögmannsstörfum. Eftir því sem fram kom í máli hans taldi hann þetta óheppilegt og sagði að í mörgum löndum væri beinlínis talið æskilegt að dómarar hafi reynslu af lögmennsku áður en þeir fái að setjast í dómarasætið.