© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Jón Steinar Gunnlaugsson Hæstaréttardómari hefur ákveðið að stefna Þorvaldi Gylfasyni, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, fyrir dómstóla vegna greinar sem Þorvaldur skrifaði og birti í mars síðastliðnum. Í greininni er fjallað um ákvörðun Hæstaréttar þar se kosning til stjórnlagaþings var ógilt og bar yfirskriftina „From Collapse to Constitution - The Case of Iceland“. Hún var skrifuð í ritröð háskólans í Munchen í Þýskalandi og birtist í mars síðastliðnum.

Jón Steinar greinir frá þessu í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Í lauslegri þýðingu Jóns Steinars segir meðal annars í greininni: „Þá gengur sá orðrómur meðal lögfræðinga, sem teljast til sérfræðinga í greiningu á lögfræðitextum hvers annars, að einn af dómurum Hæstaréttar, staðfastur flokksmaður áður en hann var skipaður dómari og þá tekinn fram fyrir þrjá hæfari umsækjendur samkvæmt áliti nefndar sem mat umsækjendur, hafi lagt drög að einni af kærunum sem Hæstiréttur, undir forystu sama dómara, nýtti sem átyllu til að ógilda kosningarnar. Ekki hafa þó verið færðar sönnur á þetta.“ Í styttri útgáfu á íslensku er þetta fellt út, að sögn Jóns.

Hann telur ljóst að Þorvaldur beini orðunum að sér. Í því felist aðdróttun um að hann [Jón] hafi gróflega misfarið með vald sitt sem dómari við Hæstarétt Íslands með því að semja fyrst með leynd kæruskjal til réttarins og stjórna síðan afgreiðslu þess.

„Það er auðvitað álitamál hvort ástæða sé til að eltast við þá lágkúru sem þessi skrif eru. Framhjá því verður hins vegar ekki litið að hér heldur á penna prófessor við Háskóla Íslands, sem hlýtur að teljast vísindamaður, því aðrir fá varla slík embætti eða ættu að minnsta kosti ekki að fá þau. Sjálfur gerir hann kröfu um að vera tekinn alvarlega í umræðum um þjóðfélagsmál, mætir í umræðuþætti og skrifar blaðagreinar. Er meira að segja svo að sjá að ýmsir taki orðræður hans alvarlega. Kannski treystir hann á að ég geti ekki stöðu minnar vegna borið hönd fyrir höfuð mér? Sé það rétt verð ég að valda honum vonbrigðum. Maður sem starfar sem dómari við Hæstarétt hefur ekki afsalað sér rétti til að bregðast við köpuryrðum og meiðingum sem beint er að persónu hans. Skárra væri það nú,“ segir í greininni.

Jón segist því hafa í hyggju að „gera á hendur honum fyllstu kröfur sem lög leyfa, bæði um refsingu, miskabætur og málskostnað. Kannski kunna svona djarfhugar ekki að meta annað betur en að fá að bera fulla ábyrgð á gjörðum sínum og orðum eftir þeim lagareglum sem gilda í landinu.“