Ísland getur ekki samið um aðild að þessu sambandi, því stjórnarskráin leyfir það ekki, að mati Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi Hæstaréttardómara. Í grein í Morgunblaðinu í dag segir hann að skilyrði fyrir aðild Íslands sé að stjórnarskránni verði fyrst breytt og þar sett inn heimild til að stjórnvöld megi framselja ríkisvald í hendur alþjóðlegra ríkjasambanda eins og ESB.

„Eru þeir menn að gegna skyldum sínum sem trúnaðarmenn almennings í landinu sem standa í viðræðum við aðrar þjóðir um málefni sem þeim er óheimilt að semja um samkvæmt stjórnlögum landsins? Hafa þeir gert viðmælanda sínum grein fyrir stöðu málsins að þessu leyti,“ spyr Jón Steinar í greininni.

„Ástæða er til að segja nú við alþingismenn, sérstaklega þá sem sitja í stjórnarandstöðu: Ef þið viljið að Ísland hætti að vera fullvalda ríki og afhendi erlendu ríkjasambandi valdheimildir, sem núna eru í okkar eigin höndum, ættuð þið að gera fyrst tillögur um breytingar á stjórnarskránni í þessa veru. Og hætta síðan að breyta íslenskum rétti til samræmis við hinn erlenda rétt þar til ljóst er orðið að stjórnarskrá okkar leyfi aðildina. Það gerir hún ekki nú.“