„Ef dómari úrskurðar þig í gæsluvarðhald á sloppnum heima hjá sér og án þess að hafa fengið formlega beiðni um það frá réttum aðila, mátt þú krefja hann svara. Þér bæri reyndar eiginlega skylda til að gera það,“ skrifar Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag heldur hann áfram að skrifa um það sem hann telur hugsanlega refsiverða háttsemi við uppkvaðningu úrskurðar um hlerun símtala hjá Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, í maí árið 2010. Í greininni sagði að Hreiðar Már hafi ákært Benedikt Bogason, þáverandi héraðsdómara, og sérstakan saksóknara fyrir refsiverða háttsemi við uppkvaðningu úrskurðar um símahlustunina.

Jón Steinar fjallaði jafnframt um málið í samtali við VB Sjónvarp.

Í grein sinni spurði Jón Steinar Benedikt fimm spurninga.

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag skrifar Jón Steinar:

„Sá mæti lögmaður Axel Kristjánsson sendir mér orðsendingu í Morgunblaðinu 21. júní. Telur hann mig hafa farið offari í erindi mínu til fyrrverandi héraðsdómara, nú hæstaréttardómara, í síðustu viku þegar ég lagði fyrir hann spurningar varðandi meðferð hans á kröfu um símhlustun á árinu 2010 hjá forstjóra Kaupþings. Telur Axel að dómarinn geti ekki svarað fyrir þetta, því dómarar geti ekki borið hönd fyrir höfuð sér á opinberum vettvangi þegar að þeim sé vegið. Ég hafi vegið að dómaranum á „ósmekklegan hátt“. [...] Dómarar fara með þýðingarmikið þjóðfélagsvald. Þess vegna þurfa þeir jafnan að rökstyðja efnislegar niðurstöður sínar. Í rökstuðningi þeirra kemur fram það sem þeir byggja niðurstöðu á. Forsendur eiga að vera tæmandi og dómarar verða ekki frekar um þær spurðir. Um þetta erum við Axel áreiðanlega sammála.“

Jón Steinar heldur áfram:

„Axel telur að ekki megi spyrja dómarann um réttmæti þessara ásakana. Hann geti ekki svarað. Ætli þetta sé rétt? Eru dómarar friðhelgir á þann hátt að þeir þurfi ekki að svara ásökunum um brot gegn starfsskyldum sínum við meðferð mála sem fyrir þá eru lögð? Ætli búið sé að koma í þeirra hendur þjóðfélagsvaldi sem þeir geta farið með andstætt lögum, eins og hér var haldið fram, og enginn geti fengið skýringar eða svör? Nei, minn kæri Axel, sem betur fer ekki. Ef dómari úrskurðar þig í gæsluvarðhald á sloppnum heima hjá sér og án þess að hafa fengið formlega beiðni um það frá réttum aðila, mátt þú krefja hann svara. Þér bæri reyndar eiginlega skylda til að gera það, þó ekki væri til annars en að veita honum það aðhald sem felst í því að þurfa að útskýra fyrir okkur hinum aðferðir sínar gegn þér. Og meira að segja ég, sem engra hagsmuna á að gæta nema þeirra að dómarar misfari ekki með vald sitt, mætti spyrja hann. Sem betur fer.“