Ríkisskattstjóri ákvað að sleppa Stoðum hf. (áður FL Group hf.) við álagningu tekjuskatts að fjárhæð tæpir 13 milljarðar króna sem til var kominn vegna 50 milljarða króna söluhagnaðar á hlutabréfum árið 2006. Þetta gerði embættið þrátt fyrir að þeir sérfræðingar, sem fjallað höfðu um málið á vettvangi skattyfirvalda, hafi talið að um væri að ræða skattskyldan hagnað og þrátt fyrir að ríkisskattstjóri hafi nokkrum árum fyrr hafi gefið út bindandi álit um að skattskylda sé fyrir hendi í tilviki sem þessu. Kemur þetta fram í grein sem Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, skrifar í Morgunblaðið í dag.

Segir Jón Steinar að málið snúist um það hvort fyrirtækinu hafi verið heimilt að fresta þessum 50 milljarða króna hagnaði í skattframtali árið 2007. Fyrirtækið taldi að það hefði slíka heimild, en frestunin gerði það að verkum að bókfærður hagnaður vegna ársins 2006 var nær enginn og kom því ekki til álagningar tekjuskatts það árið.

Skattrannsóknarstjóri var þessu ósammála og byggðist afstaða hans m.a. á bindandi áliti ríkisskattstjóra frá árinu 2000. Eftir skattrannsóknina kom það í hlut ríkisskattstjóra að breyta opinberum gjöldum fyrirtækisins og gerði hann það með úrskurði í júní 2011. Um frestunina sagði í ákvörðuninni að að svo stöddu teldi ríkisskattstjóri ekki tilefni til að gera breytingar á skilum fyrirtækisins hvað þetta atriði varðar. Um áramótin birtust svo fréttir af því að ríkisskattstjóri hafi ákveðið að endurákvarða ekki skatta á Stoðir vegna þessa atriðis. Hann hafi ekki fært nokkur rök fyrir ákvörðuninni svo vitað sé.

Jón Steinar segir í greininni að fjöldi gjaldenda hafi ekki talið sér heimilt að nýta frestunarheimild vegna þess bindandi álits sem áður hefur verið nefnt. Efast Jón Steinar um að ríkisskattstjóri geti farið með vald sitt á þennan hátt, heldur hljóti að hvíla á honum skylda til að tryggja að dómstólar landsins dæmi um þessa lögskýringu sem varði marga fleiri en Stoðir.